Ávarp forstjóra

Rekstur HS Orku gekk einstaklega vel á árinu 2018 og í lok ársins var raforkuframleiðsla fyrirtækisins í sögulegu hámarki.

Haustið 2016 dró verulega úr framleiðslu Reykjanesvirkjunar og tókst með miklum ágætum að vinna þá minnkun til baka á árinu 2017 og gott betur. Enn frekari árangur náðist á árinu 2018 með aukinni þekkingu og betri stýringu á nýtingu auðlindarinnar. Jarðhitaauðlindin á Reykjanesi er í dag eitthvert best rannsakaða jarðhitasvæði landsins og þó víðar væri leitað. Stöðugt eftirlit og mælingar á stöðu auðlindarinnar eru í fararbroddi í jarðhitaiðnaðinum. Framleiðsla Reykjanesvirkjunar var í lok ársins ríflega það sem vélarnar eru gefnar upp fyrir að framleiða. Starfsmenn og sérfræðingar HS Orku ásamt ráðgjöfum hafa unnið þrekvirki við að auka framleiðsluna og vinna úr þeirri neikvæðu þróun sem átti sér stað á árinu 2016. Ber þessi árangur gæðum orkuveranna, vélbúnaðar þeirra og færni þeirra starfsmanna sem þau reka gott vitni, en rekstur jarðhitavirkjana er mjög flókin starfsemi. Nýjasta holan á Reykjanesi, RN-36, hefur verið prófuð og er afar vænleg til vinnslu. Verður hún tengd við virkjunina á næstu mánuðum. Og nú í vetur verður næsta hola boruð, RN-37. Munu þessar holur styðja enn frekar við áframhaldandi tryggan rekstur á Reykjanesi.

Nú er unnið að framkvæmdum við varmaveitu á Reykjanesi. Mun varmaveitan þjóna Auðlindagarðsfyrirtækjum sem í dag nýta gufu og munu í náinni framtíð þess í stað nýta heitt vatn til sinnar starfsemi.

Ávarp forstjóra
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku

Raforkuframleiðsla í Svartsengi var aukin á árinu 2017 og jókst enn frekar á árinu 2018 með bættri nýtingu auðlindarinnar og framleiðslustýringu. Unnið er að undirbúningi á endurnýjun vélbúnaðar elstu eininganna í Svartsengi sem eru 30–40 ára gamlar. Ráðgert er á næstu árum að taka þessar elstu einingar úr rekstri og setja í staðinn upp eina nýja vélasamstæðu, sem mun gefa um tvöfalt það afl sem eldri vélarnar gera án þess að auka upptekt úr auðlindinni. Enn og aftur er þetta kjarninn í starfsemi HS Orku og Auðlindagarðsins.

Samfara er unnið að undirbúningi á aukningu á framleiðslu á heitu vatni. Þróun byggðar á Suðurnesjum er ör og í september 2018 stóð HS Orka fyrir málþingi með sveitarfélögum þar sem rætt var um byggðaþróun og helstu áherslur inn í framtíðina. HS Orku ber skylda til að sjá byggðunum fyrir nægjanlegu heitu vatni til langrar framtíðar og mun í tæka tíð auka framleiðslugetuna.

Nýlega tók stjórn félagsins ákvörðun um að hefja framkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar. Verkið felst í einingu sem ber heitið REY 4, 30 MW lágþrýstigufuhverfill. Jarðsjór frá skiljustöðvum Reykjanesvirkjunar verður látinn sjóða enn frekar en nú er gert og við það myndast lágþrýstigufa sem knýja mun þessa nýju vélasamstæðu. Er því um að ræða 30% aukningu raforkuframleiðslu á Reykjanesi án þess að auka upptekt úr auðlindinni. Er þetta verkefni liður í stefnu HS Orku og Auðlindagarðsins, að nýta allar auðlindir sem okkur er treyst fyrir á sem bestan hátt, samfélaginu til hagsbóta.

Á árinu gerði HS Orka samninga við erlend tryggingafélög um aukna tryggingavernd starfseminnar, að undangengnu útboði og ítarlegum skoðunum á rekstri félagsins. Ekki einatt leiðir þetta til aukinnar verndar og áhættustýringar heldur færir okkur fram á veginn í öryggis- og áhættustýringu í víðu samhengi.

Á árinu 2017 var stigið stórt skref með nýrri fjármögnun félagsins með samningi við Arion banka. Í framhaldi af þeirri fjármögnun er nú unnið að frekari fjármögnun nýrra verkefna í góðu samstarfi við Arion banka.

Í janúar 2017 lauk borun djúpborunarholunnar IDDP-2 á Reykjanesi. Verkefnið var umfangsmikið og í því fólust fjölmargar áskoranir. Á árinu 2018 var unnið að rannsóknum á holunni sem og hönnun búnaðar til blástursprófunar og undirbúningi hennar. Áformað er að hleypa holunni í blástur á fyrri helmingi þessa árs og í framhaldinu að rannsaka möguleika á nýtingu hennar til raforkuframleiðslu. Er það afar spennandi verkefni enda eru stóru markmið djúpborunarverkefnisins að nýta jarðvarma með minni tilkostnaði og minni umhverfisáhrifum en hingað til hefur verið gert.

Raforkusala HS Orku hefur gengið með miklum ágætum, jafnt til stórra sem smárra viðskiptavina, og hefur raforkusala fyrirtækisins aldrei verið meiri en árið 2018. HS Orka hlaut Íslensku ánægjuvogina í flokki raforkusala fyrir árið 2018, í 14. sinn á 16 árum. Erum við afar stolt og þakklát fyrir endurtekið traust viðskiptavina.

EBITDA ársins er 3,2 milljarðar króna samanborið við 2,2 milljarða króna árið 2017

Framleiðsla HS Orku var yfir áætlun ársins 2018. Heildarraforkuvinnsla var 1.397 GWh sem var um 2,1% yfir áætlun ársins og um 21,4% yfir framleiðslu ársins 2017.

Rekstrartekjur félagsins á árinu voru 8,9 milljarðar króna, samanborið við 7,5 milljarða króna árið 2017. Aukning er um 18% á milli ára sem skýrist fyrst og fremst af aukningu tekna vegna raforkusölu en tekjur af raforkusölu voru 85,8% af tekjum félagsins árið 2018.

EBITDA ársins er 3,2 milljarðar króna samanborið við 2,2 milljarða króna árið 2017. Helsta skýring á aukningu milli ára er aukin raforkuframleiðsla á Reykjanesi og aukning í smásölu á rafmagni.

Á árinu 2018 hófust framkvæmdir við Brúarvirkjun í Biskupstungum í Bláskógabyggð. Er hér um að ræða fyrsta vatnsaflsverkefni HS Orku. Virkjunin er 9,9 MW og mun hefja rekstur í byrjun árs 2020.

_MG_6974.jpg
Sigurður Ingi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Brúarvirkjun

HS Orka hefur enn fremur unnið að þróun annarra verkefna. Lagt var aukið hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði, vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (um 14 MW), auk annarra verkefna sem félagið vinnur að. Á HS Orka nú um 74% eignarhlut í VesturVerki.

Auðlindagarðurinn, sem vakið hefur verðskuldaða athyli, heldur áfram að vaxa og dafna. Matvælaframleiðsla í Auðlindagarðinum fer mjög vaxandi og ferðaþjónusta einnig. Fleiri ný verkefni eru á þróunarstigi. Á árinu tók Bláa Lónið í notkun hið glæsilega Retreat Hotel og Retreat Spa sem eru staðir sem veita þjónustu í algjörum sérflokki. Það er ánægjuleg staðreynd að í Svartsengi eru nú þrjú hótel, með samtals vel á annað hundrað herbergi.

Fjárfestingar á árinu 2018 námu alls 3,1 milljarði króna. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið var bygging Brúarvirkjunar en einnig voru boranir á Reykjanesi, undirbúningsframkvæmdir vegna borana í Eldvörpum, undirbúningur Hvalárvirkjunar og tengingar á borholum á Reykjanesi.

Efnahagsreikningur félagsins hefur styrkst verulega á undanförnum árum. Samfara auknum fjárfestingum hafa skuldir fyrirtækisins aukist örlítið. Félagið er gríðarlega vel búið undir frekari fjárfestingar með afar styrkum efnahag og rekstri.

HS Orka horfir fram á spennandi rekstrarár 2019 með traustum stoðum rekstrarins og áframhaldandi framkvæmdum við nýjar framleiðslueiningar.

HS Orka mun eftir sem áður veita mikilvæga þjónustu til uppbyggingar samfélagsins, til smærri og stærri aðila, með sölu á sinni þjónustu.

Að endingu vil ég þakka starfsmönnum félagsins fyrir framúrskarandi störf og fórnfýsi við rekstur félagsins.