Samfélagsleg ábyrgð

HS Orka gerðist meðlimur að tíu grundvallarviðmiðum UN Global Compact sáttmálans á sviði mannréttinda, vinnumála, umhverfis og spillingar í upphafi árs 2018. Með aðildinni skuldbindur fyrirtækið sig að virða og innleiða sáttmálann í fyrirtækið sem og að gera árlega framvinduskýrslu um framgang verkefna. Í lok janúar var fyrsta framvinduskýrslan gefin út og er hún aðgengileg á vef okkar, www.hsorka.is.

Samfélagsleg ábyrgð hefur alla tíð verið hluti af fyrirtækjamenningu HS Orku og er Auðlindagarðurinn skýrasta dæmið um hana. Kenniorð garðsins eru „Samfélag án sóunar“ þar sem þess er gætt að fullnýta þá auðlind sem okkur er treyst fyrir. Nýsköpun og frjór hugsunarháttur er undirstaða Auðlindagarðsins þar sem ætíð er leitað nýrra leiða við að fullnýta auðlindina. Auðlindagarðurinn og sú nýting á auðlindastraumum, fyrirtækjum og samfélaginu til heilla er einstakt á Íslandi.

Sem hluti af innleiðingu á UN Global Compact voru haldnar vinnustofur með öllum starfsmönnum þar sem sáttmálinn var vel kynntur. Í kjölfarið komu starfsmenn með hugmyndir að verkefnum sem styðja við sáttmálann. Vinnustofurnar voru mikilvægur hluti af innleiðingarferli sáttmálans meðal starfsmanna.