HS Orka hefur einsett sér að draga úr umhverfisáhrifum frá starfsemi sinni og hefur sett sér langtímamarkmið sem og árleg skammtímamarkmið. Helstu umhverfislegu áhrif frá starfseminni eru losun á koltvísýringi. Fyrirtækið hefur unnið að því að draga úr losun CO2-ígilda á kílówattstund. Árið 2015 setti HS Orka sér það markmið að minnka losun um 40% árið 2030 miðað við árið 2014. Þökk sé skilvirkari nýtni á auðlindinni dróst losun saman um 13% frá árinu áður og hefur dregist saman um 24% síðan 2014.
HS Orka, ásamt öðrum fyrirtækjum í orku- og veitugeiranum, setti sér það markmið að verða kolefnishlutlaust fyrir 2040 og fyrirtækin afhentu ráðherrum Alþingis yfirlýsingu þess efnis í mars 2018. Heildarlosun fyrirtækisins árið 2018 var 74.600 tonn CO2-ígilda, þar af voru 99,7% frá auðlindinni sjálfri. Losun vegna sorpmeðhöndlunar, flugsamgangna og eldsneytisnotkunar bifreiða fyrirtækisins var 240 tonn eða 0,3% af heildarlosun. Sá hlutur var kolefnisjafnaður með gróðursetningu trjáa gegnum Kolvið, alls 1.915 tré.
HS Orka flokkar og endurvinnur sorp sem fellur til í starfseminni. Markmið fyrirtækisins er að draga úr hlut óendurvinnanlegs sorps, sem er sorp sem endar í urðun eða brennslu, svo að hann verði 5% fyrir 2030. Betur má ef duga skal enda jókst hlutur óendurvinnanlegs sorps um 11% frá árinu 2017 og hefur aukist stöðugt síðustu ár.
Ötullega hefur verið unnið að því að fjölga vistvænum bifreiðum fyrirtækisins sem og að setja upp hleðslustöðvar við starfstöðvarnar. Markmið þetta má kalla hástökkvara enda jókst hlutfall vistvænna bifreiða um 58% frá árinu 2017. Í dag er hægt að hlaða 22 bíla samtímis og á árinu verður hleðslustöðvum fjölgað.
Tollstjóri flokkar vélknúin ökutæki eftir skráðri losun koltvísýrings í flokka A til J, þar sem bílar í flokki A losa minnst af koltvísýringi, eða 0-80 g á hvern kílómetra. Á árinu 2017 voru 17% bifreiða fyrirtækisins í tollflokki A. Það er 10% hækkun frá árinu áður. Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hvað hæst og því er það náttúruleg þróun að hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum aukist með framþróun á tvinn- og rafmagnsbílum.