Árið 2018 var söluhæsta ár HS Orku frá upphafi. Það má að miklu leyti rekja til mikillar aukningar á sölu raforku til gagnavera en sá iðnaður hefur verið í stöðugum vexti síðustu ár. Notkun fiskimjölsverksmiðja var þá umtalsverð á árinu auk þess sem almenn raforkunotkun hélt áfram að aukast á flestum svæðum á landinu. Sérstaklega var mikil aukning á Suðurnesjunum sem skýra má að mestu leyti með mikilli uppbyggingu í ört stækkandi bæjarfélögum. Gera má ráð fyrir að eftirspurn eftir raforku á almennum markaði aukist nokkuð áfram þó ólíklegt sé að aukningin verði jafn mikil á nýju ári og á árinu 2018.
Áfram var mikill áhugi erlendra fjárfesta á að byggja upp ýmiss konar starfsemi á Íslandi til lengri tíma. Áhugi gagnavera er enn nokkur en niðursveifla í verðgildi rafmynta hefur þó gert það að verkum að heldur hefur dregið úr áhuga þeirra sem einblína á þann markað. Á Íslandi hefur þekking á rekstri gagnavera aukist mikið og fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessum rekstri vinna að því hörðum höndum að fá til landsins aðila sem geta nýtt sér þau hagstæðu skilyrði sem Ísland býður upp á til rekstrar gagnavera. Þá hefur aukist áhugi erlendra aðila á þörungarækt á Íslandi. Þannig starfsemi fellur mjög vel að starfsemi Auðlindagarðsins þar sem þörungarækt nýtir fleiri auðlindastrauma en eingöngu rafmagn til sinnar framleiðslu.
Á árinu 2018 jókst raforkuframleiðsla umtalsvert í Reykjanesvirkjun eftir að hafa gefið nokkuð eftir á árunum 2016 og 2017. Framleiðsluaukning ársins var 33% milli ára og hefur framleiðslugeta verið fullnýtt í Reykjanesvirkjun síðan frá miðju ári 2018. Auk þess var aukning á framleiðslu í Svartsengi.
Á árinu 2018 jókst raforkuframleiðsla umtalsvert í Reykjanesvirkjun
Stefnt er að því að hefja byggingu á næsta áfanga Reykjanesvirkjunar með að bæta við lágþrýstivél sem mun nýta jarðhitavökva sem þegar er nýttur í vélum 1 og 2 á Reykjanesi og því ekki um aukna upptekt úr svæðinu að ræða. Áætluð framleiðslugeta vélarinnar er 30 MW og gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framleiðslu fyrri hluta árs 2021. Þá er til skoðunar að gera breytingar í Svartsengi og skipta út eldri vélum með það að markmiði að ná betri nýtingu án þess að auka upptöku úr auðlindinni.
Á árinu var einnig hafist handa við byggingu Brúarvirkjunar í Biskupstungum, fyrstu vatnsaflsvirkjunar HS Orku. Um er að ræða 9,9 MW virkjun sem gert er ráð fyrir að hefji framleiðslu í byrjun árs 2020. Þá var áfram unnið að undirbúningi Hvalárvirkjunar á Ófeigsfjarðarheiði í samstarfi við dótturfyrirtæki HS Orku, VesturVerk, og íbúa og hagsmunaaðila á Vestfjörðum.
HS Orka jók enn frekar kaup sín frá litlum einkareknum vatnsaflsvirkjunum og nemur samanlagt uppsett afl þeirra nú um 25 MW með tæplega 160 GWh ársframleiðslu.
Á heildsölumarkaði hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á gjaldskrám Landsvirkjunar sem miða að því að hækka verulega verð á breytilegri framleiðslu. Sölufyrirtæki á almenna markaðnum þurfa öll að kaupa toppafl til að mæta eðlilegum dægursveiflum á almenna markaðnum. Landsvirkjun býður tvenns konar samninga til að mæta þessum sveiflum, breytilegan árssamning með skilgreindu afli og orku og síðan skammtímaorku með mismunandi magni sem hægt er að kaupa í fáeinar klukkustundir.