Auðlindagarðurinn

Kenniorð Auðlindagarðsins eru „Samfélag án sóunar“, að nýta beri alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fullnustu, á sem ábyrgastan hátt, samfélaginu til framþróunar og heilla. Með Auðlindagarðinum vill HS Orka vekja fólk til umhugsunar um þær verðmætu auðlindir sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir og því falið að tryggja að endist kynslóð fram af kynslóð. Hjá HS Orku eru nýttir sjö auðlindastraumar sem falla til við framleiðslu rafmagns og heits vatns. Auðlindin er dýrmæt og því mikilvægt að nýta hana af ábyrgð, alúð og skynsemi og sóa engu. Fjölnýting auðlinda styður við ábyrga nýtingu þeirra og stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins.

Fjölnýting auðlinda styður við ábyrga nýtingu þeirra og stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins

Á síðasta ári hélt Auðlindagarðurinn áfram að vaxa og eflast með nýjum fyrirtækjum og fleiri störfum, Suðurnesjunum og landinu öllu til hagsbóta. Áfram er unnið markvisst að því að því að fá ný, sérhæfð fyrirtæki í garðinn sem geta nýtt þá auðlindastrauma sem í boði eru. Fleiri fjölbreytt og sérhæfð fyrirtæki sem grundvalla starfsemi sína á rannsóknum og þróun styrkja Auðlindagarðinn og þá hugsun sem starfsemi hans byggir á. Starfsmenn HS Orku eru undir sterkum áhrifum frá Alberti Albertssyni, hugmyndasmiði HS Orku, sem hefur ætíð lagt áherslu á ábyrga framleiðslu og vinnslu og hvatt starfsmenn til að lifa og starfa í náttúrunni en ekki á henni. Samkvæmt hugmyndafræði Alberts er hugmyndaflug eini takmarkandi þátturinn í framþróun. Auðlindagarðurinn er afsprengi þessa hugsunarháttar.

Frá vinnslu HS Orku eru enn ónýtt tækifæri og sífellt er verið að skoða nýjar leiðir sem stuðla að bættri nýtingu auðlindanna og styrkja um leið Auðlindagarðinn.