Framkvæmdir við rennslisvirkjunina Brúarvirkjun, í efri hluta Tungufljóts í Bláskógabyggð, hófust í byrjun sumars. Samið var við aðalverktakann ÍSTAK og gengið var formlega frá öllum innkaupasamningum á árinu. Kössler í Austurríki framleiðir stjórn- og vélbúnaðinn, Koncar í Króatíu spennana, Metalna í Sloveníu smíðar lokubúnað og Future Pipe á Spáni sér um þrýstipípu. Verkið er á áætlun og við lok ársins 2018 var kominn samfelldur skurður frá stöðvarhúsi að inntaki fyrir þrýstipípu og unnið var að uppsteypu bæði í stöðvarhúsi og við inntaksmannvirki.
Framkvæmdir vegna endurheimtar votlendis eru áætlaðar sumarið 2019
Í upphafi árs var HS Orka í samningaviðræðum við birgja og aðalverktaka en vegna óvæntrar kæru á framkvæmdaleyfið, sem sveitarfélagið Bláskógabyggð veitir, urðu tafir á verkefninu sem þurfti að bregðast við. Úrskurðarnefnd umhverfis- og kærumála barst kæra og stöðvunarkrafa á betrumbætt framkvæmdaleyfi frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands og Landverndar en nefndin hafnaði stöðvunarkröfunni. Kæra var enn í meðferð hjá nefndinni í lok árs 2018 en nýbirtur úrskurður hafnar kröfunni um ógildingu leyfisins. Verktakinn, ÍSTAK, hóf sína aðstöðuuppbyggingu í apríl sem var tilbúin í maí og framkvæmdir hófust í kjölfarið. Verkgæði voru til fyrirmyndar, verkið á áætlun og reiknað er með því að rafmagnsframleiðsla geti hafist á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020.
Endurheimt birkiskógar hófst síðastliðið sumar með gróðursetningu Skógræktarinnar og 25 þúsund plöntum var komið fyrir á tíu hektara svæði í Haukadal. Framkvæmdir gengu vel þrátt fyrir mikla vætutíð. Framkvæmdir vegna endurheimtar votlendis eru áætlaðar sumarið 2019.
Aðföng úr innkaupasamningum bárust jafnóðum til landsins og í desember barst fyrri sending til Þorlákshafnar á 1.700 metra langri þrýstipípu. Mest þungi framkvæmdarinnar er á næsta ári og eru vatnshverflar til rafmagnsframleiðslunnar áætlaðar til landsins í lok sumars.
Viðræður eru hafnar við Grindarvíkurbæ vegna rannsókna HS Orku á jarðhitasvæði austan Grindarvíkurvegar. Skipulagsbreytingar og verkefnaundirbúningur er kominn langt á veg fyrir verkefnið.
Tvær ferskvatnsrannsóknarholur voru boraðar á árinu 2018, annars vegar undir Sýlingarfelli og hins vegar við Litla-Skógfell. Tilgangurinn með þeim er að betrumbæta skilning okkar á ferskvatnsstraumum á svæðinu og er liður í því að staðsetja nýtt framtíðarvatnsból á Reykjanesi.
Undirbúningsframkvæmdir við Eldvörp luku með styrkingu núverandi vegar og gerð borplans fyrir fyrirhugaða rannsóknarborun á svæðinu sem er áætluð árið 2019. Nýtt framkvæmdaleyfi fékkst gefið út með breyttum tímasetningum. Hafist var handa við að skoða með hvaða hætti best væri staðið að gufuvinnslu í Eldvörpum með gerð valkostagreiningar og hugmyndalíkana.
Frumhönnun og arðsemismat var unnið árið 2018 vegna endurnýjunar á vélbúnaði í orkuverum 3 og 4 í Svartsengi. Svartsengi 7 verður nýtt betrumbætt orkuver sem mun framleiða bæði rafmagn og heitt vatn með betri nýtingu á auðlind en næst í orkuverum 3 og 4.
Undirbúningsvinna vegna byggingar 30 MW lágþrýstivirkjunar, REY 4, til að bæta nýtingu Reykjanesvirkjunar hófst á ný á árið 2018. Nýtt framkvæmdaleyfi var gefið út en áður hafði leyfi til framkvæmda verið endurnýjað og nauðsynlegar breytingar á skipulagi gerðar til að samræmast byggingaráformum skiljustöðvar og hreinsistöðvar. Stöðvarhússtækkunin er sú hin sama og ætluð var fyrir REY 3 stækkunina.
Samningaviðræður við vélarframleiðanda, frekari hönnun, jarðvegsrannsóknir og undirbúningur á útboðum fór á fullan skrið en áformað er að útboð fari fram fyrri hluta ársins 2019.
Framkvæmdir á nýrri varmaveitu á Reykjanesi hófust 2018. Varmaveitan fyrir fyrirtækin á svæðinu er annar liður í að betrumbæta auðlindanýtinguna á Reykjanesi og fellur vel að Auðlindagarðshugsuninni hjá HS Orku. Reist verður varmastöð og lögð dreifiveita frá henni að fiskþurrkunarfyrirtækjum. Notkun þeirra fer vaxandi og varð í lokahönnun að taka tillit til þeirra áforma. Skipulagsmál voru unnin í samráði við leyfisveitanda, Reykjanesbæ.
Unnið var að skipulagsbreytingum á skipulögðum lagnaleiðum og borteigum fyrir fyrirhugaðar vinnsluboranir á næstu árum.
Mögulegt jarðhitasvæði við Stóru-Sandvík liggur að jarðhitasvæðinu á Reykjanesi og eru áform um virkjun jarðhita þar í nýtingarflokki rammaáætlunar. Rannsóknir á svæðinu, aðallega viðnámsmælingar, hafa verið gerðar samhliða öðrum yfirborðsrannsóknum í tengslum við jarðhitanýtingu á svæði Reykjanesvirkjunar og í Eldvörpum-Svartsengi. Þannig höfum við öðlast frekari þekkingu á svæðinu og næsta skref í frekari rannsóknum er borun rannsóknarholu.
Rannsóknargögn um Stóru-Sandvík hafa verið til skoðunar auk þess sem litið hefur verið til ýmissa þátta varðandi bestun á valkostum o.fl. Eru sérfræðingar HS Orku að meta hvort og hvernig rannsóknarholu sé ákjósanlegast að bora á svæðinu.
HS Orka sóttist eftir framkvæmdaleyfi til að reisa mastur í Staðarlandi á Reykjanesi. Í umsókninni var sóst eftir því að reisa tímabundið allt að 80 metra hátt rannsóknarmastur samkvæmt meðfylgjandi framkvæmdalýsingu og er tilgangur þess að styðja við frekari vindorkurannsóknir á svæðinu.
Ekki fékkst vilyrði fyrir því að að reisa mastur í Grindavíkurbæ en skipulagsnefndin hafnaði beiðninni þar sem ekki er búið að marka stefnu um nýtingu vinds til rafmagnsframleiðslu. Unnið er að stefnumörkuninni í yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags samkvæmt bókun nefndarinnar.
HS Orka vinnur að skoðun annarra tækifæra á sviði nýtingar vindorku.
VesturVerk hefur áfram þróað verkefnið Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem og minni vatnsaflsverkefni við Ísafjarðardjúp. Unnið var að gerð deiliskipulags fyrir undirbúningsframkvæmdir, veglagningu, svæði undir vinnubúðir og brúun Hvalár, m.a. til að gera mögulegt að ljúka nauðsynlegum rannsóknum við stíflugarða. Lítils háttar breyting var einnig gerð á aðalskipulagi. Átti nýtt deiliskipulag og breytt aðalskipulag að öðlast gildi í október en vegna seinagangs í meðferð skipulagsáætlana og mistaka leyfisveitanda þurfti að endurtaka auglýsingaferli þeirra. Er áætlað að skipulagsáætlanir öðlist gildi á vordögum eða í byrjun sumars og verður þá sótt um framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir. Samhliða skipulagsvinnu vegna undirbúningsframkvæmda hefur verið unnið að gerð endanlegs aðalskipulags vegna virkjunarmannvirkja og deiliskipulags fyrir mannvirki, námusvæði o.fl. Munu niðurstöður undirbúningsframkvæmda og rannsókna nýtast til að fullgera hið endanlega skipulag fyrir virkjunina. Áætlað er að þeirri skipulagsvinnu ljúki á fyrri hluta ársins 2020.
Í tengslum við áform um virkjun Hvalár og nokkra virkjunarkosti við Ísafjarðardjúp hefur Landsnet haft til skoðunar að skilgreina nýjan tengistað við innanvert Djúpið.
Í tengslum við áform um virkjun Hvalár og nokkra virkjunarkosti við Ísafjarðardjúp hefur Landsnet haft til skoðunar að skilgreina nýjan tengistað við innanvert Djúpið. Myndi Hvalárvirkjun tengjast við meginflutningskerfið á þessum nýja tengistað. Meðal annars hefur Landsnet skoðað að leggja línu úr Kollafirði, yfir Kollafjarðarheiði og að nýjum tengistað inn af Ísafjarðardjúpi. Frá Hvalá að nýjum tengistað yrði lagður jarðstrengur meginhluta leiðarinnar, samhliða gerð vegar yfir Ófeigsheiði. Þess má vænta að þessi undirbúningur Landsnets skili sér í kerfisáætlun fyrirtækisins árið 2019 og þá með endanlegu staðarvali tengistaðar. Í kjölfar þess færu síðan fram samningar við landeigendur, skipulagsvinna með sveitarfélögum og mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Er þess vænst að samningur við Landsnet um tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið liggi fyrir á árinu 2020.
Rannsóknum vegna Skúfnavatnavirkjunar var haldið áfram og hafa þær m.a. leitt í ljós að verkefnið er stærra en áætlað var í upphafi, eða 14–15 MW í stað um 9 MW. Mun VesturVerk því skilgreina verkefnið meðal verkefna í fjórða áfanga rammaáætlunar.
Þá var tekið til skoðunar hugsanlegt staðarval til nýtingar vindorku, en nýting vindorku og stýranleiki Hvalárvirkjunar eiga góða samlegð. Áfram verður unnið að því meta hagkvæmni þess að reisa vindorkustöð sem gæti hentað stærð og miðlunargetu Hvalárvirkjunar.