Ávarp frá stjórnarformanni til hluthafa – litið um öxl eftir áratug
Ég hef gegnt hlutverki stjórnarformanns HS Orku í tíu ár. Þetta ávarp sem ég skrifa nú til hluthafa er sennilega það síðasta frá mér til ykkar vegna ákvörðunar aðaleiganda HS Orku, Innergex Renewable Energy Inc., um að selja 53% eignarhlut sinn á þessu ári. Því langar mig að líta yfir farinn veg og rifja upp helstu málefni sem fyrirtækið hefur fengist við á þessum áratug sem ég hef verið því tengdur og einnig að horfa til framtíðar þess.
Ég tel að HS Orka hafi aldrei verið í eins góðu standi og fyrirtækið er í dag.
Ég vil byrja á því að lýsa yfir þakklæti mínu fyrir að hafa notið þeirra forréttinda að starfa með fólkinu hjá HS Orku og stjórn fyrirtækisins. Það hefur verið mér mikil ánægja að verða vitni að þeirri fagmennsku og vináttu sem ríkir meðal hinna framúrskarandi einstaklinga sem skipa framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Sérstaklega langar mig að nefna forstjóra fyrirtækisins, Ásgeir Margeirsson, sem hefur ávallt borið hag HS Orku fyrir brjósti í öllum sínum störfum. Ég hef átt einstakt samband við hann þennan tíma sem við höfum starfað saman, samband sem einkennist af trausti og trúmennsku. Ég er afar þakklátur fyrir framlag og stuðning þeirra stjórnarmeðlima sem hinn aðaleigandi HS Orku, Jarðvarmi, skipaði en það eru þau Anna Skúladóttir og Gylfi Árnason. Einnig langar mig að nefna nokkra samstarfsmenn mína í Vancouver sem hafa lagt fram sinn skerf í þágu HS Orku, sérstaklega þau Lyle Braaten, Lynda Freeman og John Carson. Lyle stuðlaði að farsælli niðurstöðu gerðardómsmálsins gegn Norðuráli; Lynda og John sátu í stjórn HS Orku sem fulltrúar Alterra og áttu stóran þátt í fjármálastjórn fyrirtækisins. Loks langar mig að þakka Jarðvarma fyrir framlag þeirra til fyrirtækisins á þeim tíma sem ég hef gegnt hlutverki stjórnarformanns.
Embættistíð mín hjá HS Orku hófst með meirihlutakaupum Magma Energy 2009–2010 (sem breytti um nafn árið 2011 og varð að Alterra Power, en þegar Innergex keypti Alterra 2018, varð það að Innergex Renewable Energy). Í fyrstu var leiðin nokkuð grýtt þar sem söngkonan Björk Guðmundsdóttir andmælti kaupum kanadísks fyrirtækis á HS Orku skömmu eftir íslenska fjárhagshrunið 2008 og skar upp herör á óupplýstan hátt gegn Magma og sjálfum mér persónulega. Ég vona að mér hafi tekist að sýna fram á það með góðum verkum og réttu fyrirkomulagi að undir okkar stjórn hafi HS Orka þróað orkulindir jarðhita á ábyrgan hátt, ekki aðeins í hag hluthafa fyrirtækisins, heldur einnig íslenska ríkisins og landsmanna allra.
Mig langar að minnast þriggja atriða sem standa upp úr þegar ég rifja upp tíma minn sem stjórnarformaður HS Orku. Í fyrsta lagi voru það farsæl málalok varðandi Norðurál eftir samtals þrenn málaferli. Þetta fól í sér mikinn kostnað og mikla vinnu, algerlega að óþörfu. En lokasigurinn gerði okkur kleift að byggja upp framtíð án þeirra hlekkja sem samningurinn fól í sér og skilyrða sem ekki var hægt að uppfylla. Í öðru lagi var það borun dýpstu háhitaborholu heims á Reykjanesi 2016–2017. Þessi borun leiddi í ljós jarðhitakerfi langt fyrir neðan það kerfi sem nú er verið að nýta og býður upp á stórkostlega framtíðarmöguleika til orkuframleiðslu á Reykjanesi. Þetta verkefni krafðist heilmikillar vinnu og ég þakka hér með öllum þeim sem lögðu sitt á vogarskálarnar til að ná þessum árangri. Í þriðja og síðasta lagi eru tvö verkefni sem komið var á laggirnar 2017–2018 og ég kalla risastökk fram á við fyrir HS Orku, en það er þróun Brúarvirkjunar og 4. áfanga Reykjanesvirkjunar. Mig langar að þakka öllum stjórnendum hjá okkur fyrir eldmóð sinn í þessum verkefnum og einnig Arion banka fyrir fjárhagslegan stuðning við þau. Svo ætla ég að taka lítið hliðarspor og bera lof á Bláa Lónið sem HS Orka á 30% hlut í, og sérstaklega á forstjóra þess, Grím Sæmundsen, en honum hefur tekist að skapa háklassaheilsulind á heimsvísu sem er vinsælasti ferðamannastaður Íslands. Þetta er ótrúleg saga og ég hef notið þeirrar ánægju að vera þátttakandi á hliðarlínunni.
Ég tel að HS Orka hafi aldrei verið í eins góðu standi og fyrirtækið er í dag. Afkastageta orkuvera fyrirtækisins er nýtt til fulls, orkusalan hefur aldrei verið jafn mikil, virkjunarverkefni eru að fullu fjármögnuð og framkvæmdir hafnar og tækifæri fyrir enn frekari vöxt eru í augsýn. Hvílík stund til að rétta nýjum stjórnarformanni og nýjum meirihlutahópi stjórnartaumana til þess að leiða fyrirtækið inn í enn bjartari framtíð.
Fyrirtæki er ekki bara farsælt vegna þess að það skilar góðum hagnaði. Farsæld fyrirtækis felst einnig í framlagi til þjóðfélagsins, að gera umhverfisvernd eitt af helstu stefnumiðum sínum, að útvega starfsmönnum sínum öruggan og heilsuvænan vinnustað og stuðla að hagsæld samfélagsins sem umlykur það. HS Orka er þannig fyrirtæki og ég er stoltur af því að hafa fengið að vinna með því afbragðsgóða fólki sem hlúð hefur að þeirri þróun. Ef svo fer að störfum mínum hjá HS Orku muni ljúka á árinu 2019 er ég mjög sáttur við að skilja við fyrirtækið í þessari góðu stöðu. Ég hef notið þess að vera á Íslandi og sendi mínar bestu árnaðaróskir um framtíð þar sem endurnýjanlegar orkulindir og mannauður koma saman til að byggja enn sjálfbærara og farsælla fyrirtæki í þágu hluthafa þess og íslensku þjóðarinnar.